Diddu Mater Class

Diddú

MASTER CLASS

24.6. - 27.6.2024

Sönghátíð í Hafnarborg 2024 býður upp á master class námskeið í klassískum söng með Diddú (Sigrúnu Hjálmtýsdóttur) sópran. Námskeiðið er fyrir söngvara og söngnemendur. Píanóleikari námskeiðsins er Helga Bryndís Magnúsdóttir.

Námskeiðið fer fram í Hafnarborg, Strandgötu 24, í Hafnarfirði eftirfarandi daga:

Mánudaginn 24.6. – fimmtudaginn 27.6.2024 fyrir og eftir hádegi.

Fimmtudaginn 27. júní 2024 kl. 20:00: Tónleikar í Hafnarborg. Flytjendur eru virkir þátttakendur á master class námskeiðinu ásamt píanóleikaranum Helgu Bryndísi Magnúsdóttur. Tónleikarnir eru opnir áhorfendum og selt er inn á þá. Tónleikarnir verða hljóðritaðir og fá þátttakendur eintak af upptökunni.

Námskeiðsgjald fyrir virka þátttakendur er 32.000 kr.  Það innifelur upptöku af tónleikunum 27. júní, sem tilvalið er að söngnemendur noti sér til kynningar.

Athugið að fjöldi virkra þátttakenda er takmarkaður. Lágmarkskrafa er að hafa lokið miðprófi í söng (ekki í tónfræðagreinum). Lög og aríur á námskeiðinu og tónleikunum skulu sungin utanbókar. Umsóknir skulu berast fyrir 18. maí 2024 kl. 15:00. Svör við umsóknum verða send út 20. maí.

Skráning fer fram á Google forms

 

Vinsamlegast beinið spurningum í netfangið info@songhatid.com

SIGRÚN HJÁLMTÝSDÓTTIR, DIDDÚ, sópran hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar stundaði hún sígilt söngnám hjá Rut Magnússon við Tónlistarskólann í Reykjavík, hjá Lauru Sarti við Guildhall School of Music and Drama í London og hélt síðan til Ítalíu í framhaldsnám þar sem kennari hennar var Rina Malatrasi. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum og sýningum jafnt á sviði sem og í kvikmyndum, sem ber fjölbreyttum hæfileikum hennar vitni. Frumraun sína á óperusviði þreytti hún í hlutverki dúkkunar, Olympiu, í Ævintýrum Hoffmanns í Þjóðleikhúsinu. Meðal verkefna hennar hjá Íslensku óperunni eru hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Papagenu og Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, Lúsíu í Lucia di Lammermoor, Víolettu í La Traviata, Adínu í Ástardrykknum og Rósalindu í Leðurblökunni. Sigrún söng þrjú hlutverk í uppfærslu á Niflungahring Wagners sem var samvinnuverkefni Íslensku óperunnar, Þjóðleikhússins og Listahátíðar. Árið 2006 söng hún hlutverk Kæthe í óperunni Le Pays eftir J.G. Ropartz á Listahátíð. Hún hefur margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og erlendum hljómsveitum víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún hefur hljóðritað fjóra geisladiska við undirleik Sinfóníunnar en alls hefur hún sungið inn á rúmlega 70 hljómplötur. Árið 2001 söng hún ásamt José Carreras á eftirminnilegum tónleikum í Laugardagshöll og 2005 hlotnaðist henni sá heiður að stíga á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll. Undanfarin ár hefur hún komið fram á tónleikum í Frakklandi, Rússlandi, Kanada og Kína, svo nefnd séu dæmi. Síðast söng Sigrún við Íslensku óperuna hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, fyrstu óperusýningunni í Hörpu, haustið 2011 og hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á hlutverkinu. Árið 1995 var Sigrún sæmd hinni íslensku fálkaorðu og árið 1997 finnsku ljónsorðunni.