Kristinn Masterclass Concert

Kristinn Sigmundsson MASTER CLASS

19.6. - 22.6.2023

Sönghátíð í Hafnarborg 2023 býður upp á master class námskeið í klassískum söng með bassasöngvaranum Kristni Sigmundssyni. Námskeiðið er fyrir söngvara og söngnemendur. Píanóleikari námskeiðsins er Matthildur Anna Gísladóttir.

Námskeiðið fer fram í Hafnarborg í Hafnarfirði eftirfarandi daga:

Mánudaginn 19.6. – fimmtudaginn 22.6.2023 fyrir og eftir hádegi.

Fimmtudaginn 22. júní 2023 kl. 20:00: Tónleikar í Hafnarborg. Flytjendur eru virkir þátttakendur á master class námskeiðinu ásamt píanóleikaranum Matthildi Önnu Gísladóttur. Tónleikarnir verða hljóðritaðir og fá þátttakendur eintak af upptökunni.

Námskeiðsgjald fyrir virka þátttakendur er 30.000 kr.  Það innifelur upptöku af tónleikunum 22. júní, sem tilvalið er að söngnemendur noti sér til kynningar.

Athugið að fjöldi virkra þátttakenda er takmarkaður. Lágmarkskrafa er að hafa lokið miðprófi í söng. Lög og aríur á námskeiðinu skulu sungin utanbókar. Umsóknir skulu berast fyrir 19. maí 2023 kl. 15:00. Svör við umsóknum verða send út 20. maí.

Skráning fer fram á Google forms

 

Vinsamlegast beinið spurningum í netfangið info@songhatid.com

KRISTINN SIGMUNDSSON bassasöngvari lagði stund á söngnám hjá Guðmundi Jónssyni, Helene Karusso og John Bullock. Hann hefur komið fram í óperu- og tónleikahúsum víðsvegar um heim í u.þ.b. þrjá áratugi, svo sem New York, San Francisco, Los Angeles, Milano, London, Berlín, Amsterdam, Brüssel, Tokyo og Beijing. Hann hefur sungið yfir 100 óperuhlutverk. Kristinn hefur haldið marga ljóðatónleika á Íslandi, aðallega með Jónasi Ingimundasyni. Þeir hljóðrituðu Svanasöng og Vetrarferð Schuberts, auk nokkurra diska með íslenskum og erlendum sönglögum.  Hann hefur auk þess tekið upp Vetrarferðina með Víkingi Heiðari Ólafssyni. Af öðrum upptökum má nefna Don Giovanni og Töfraflautuna undir stjórn Arnolds Östman (Decca), Jóhannesar- og Mattheusarpassíu Bachs með Franz Bruggen (Phillips) Szenen aus Goethes Faust eftir Schumann undir stjórn Philippe Herreweghe (Harmonia Mundi), Fidelio undir stjórn Sir Colin Davis (London Symphony Orchestra), Die Gezeichneten eftir Franz Schreker, stj. Lothar Zagrosek (Deutsche Grammophon) og síðast en ekki síst, The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano undir stjórn James Conlon (Los Angeles Óperan). Sú upptaka vann til tvennra Grammy-verðlauna. Kristinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga og má þar nefna Philadelphia Opera prize og Opernwelt-verðlaunin í Belvedere óperusöngvarakeppninni í Vín, Stämgaffeln - Det klassiska svenska fonogrampriset, Íslensku tónlistarverðlaunin, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, Bæjarlistamaður Kópavogs, Útflutningsverðlaun Forseta Íslands og Íslandsstofu, Grímuverðlaun - Söngvari ársins og Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.